Fyrirlestrar

Fyrirlestrar 2017-06-06T09:39:47+00:00

Loftslagsmarkmið samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur – Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjór OR

Veitt innsýn í gerð og framfylgd loftslagsmarkmiða Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga sem fela í sér helmingsminnkun kolefnisspors samstæðunnar til ársins 2030.

 

Loftslagsmarkmið Norðurorku

Norðurorka hefur sett sér skýr og metanaðarfull markmið í loftslagsmálum. Hluti af því var að skrifa undir yfirlýsingu FESTU og Reykjavíkurborgar, en þar kemur meðal annars fram að þeir sem taka þátt ætli að sýna samfélagslega ábyrgð í verki. Í erindinu verður fjallað um kolefnisbókhald Norðurorku.

 

Það sem skiptir mestu máli – Kristján Kristinsson, öryggistjóri, Landsvirkjun

Í erindinu er fjallað um þær áskoranir sem orkugeirinn stendur frammi fyrir til að koma í veg fyrir alvarleg slys. Það er mikilvægt að forgangsraða aðgerðum þannig að fyrst sé hugað að þeim hættum sem valdið geta alvarlegum skaða á starfsmönnum. Landsvirkjun hefur ráðist í ákveðnar aðgerðir til að greina slíkar hættur í starfseminni og vinna markvisst að því að koma í veg fyrir að þær leiði til alvarlegra atvika.

 

Staðlað verklag gegn banaslysahættum

Erindið fjallar um banaslysahættur sem eru þekktar í vinnuumhverfinu og valda flestum banaslysum á heimsvísu. Landsnet hefur verið að vinna verkefni til að greina og kortleggja banaslysahættur í sýnu vinnuumhverfi og staðla verklega gegn þeim.

 

Efnahagslegt mat á virkjunarkostum 

Lýst verður hvernig meta má áhrif virkjana á samfélagið með aðferðum hagfræðinnar. Kostnaður við að virkja og tekjur af rafmagnsframleiðslu eru gerð upp eins og hjá venjulegu fyrirtæki, en við bætist að umhverfisáhrif framkvæmda eru metin til fjár. Niðurstaðan ræðst því bæði af viðskiptalegri afkomu þess sem virkjar og áhrifum virkjunar á umhverfi sitt, en ekki aðeins öðrum þessara þátta. Rætt verður sérstaklega hvernig komast má hjá því að niðurstaðan verði bjöguð í aðra hvora áttina.

Þeistareykir: Virkjun tekur á sig mynd – Valur Knútsson, yfirverkefnastjóri Þeistareykjavirkjunar, Landsvirkjun

Fjallað er um stöðu framkvæmda á Þeistareykjum í máli og myndum. Kynntar frumniðurstöður úr sjálfbærniúttekt sem fram fór á undirbúningsferli verkefnisins nú í ársbyrjun en hún er sú fyrsta sinnar tegundar sem gerð er á jarðhitavirkjun.

Snjallmælavæðing hitaveitu HS Veitna hf. 

Af hverju var farið af stað með stærstu snjallmælavæðingu Íslands og hverju er hún að skila okkur og neytendum? Hverjir eru kostir snjallmælis umfram hemil eða eldri „rellu“mæla? Hver græðir á þessu?

 

Meira virkjanavatn til höfuðborgar – Sigurður Orri Steinþórsson, fagstjóri hitaveitu, Veitum

Í erindinu verður skýrt út hvers vegna fara þarf í mikla uppbyggingu á stofnkerfi hitaveitu fyrir höfuðborgarsvæðið.
Farið verður yfir áætlanir Veitna um nýja stofna og dælustöðvar sem koma þurfa á næstu árum og áratugum.

 

Uppbygging hitaveitu í dreifbýli – Indriði Þór Einarsson, sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sveitarfélagsins Skagafjarðar

Skagafjarðarveitur hafa staðið fyrir öflugri uppbyggingu hitaveitu í dreifbýli á síðustu árum og eru í dag um 90% heimila í Skagafirði tengd hitaveitu. Í erindinu verður farið yfir uppbyggingu Skagafjarðarveitna á hitaveitu í dreifbýli síðastliðin aldarfjórðung eða svo.

 

Úr fjötrum í frelsi – Sigríður Klara Árnadóttir, framkvæmdastjóri 

Þó Kjósarhreppur sé með smærri sveitarfélögum landsins þá eru Kjósverjar stórhuga.  Eftir nær 30 ára leit eftir heitu vatni er draumurinn að rætast. 80 heimili í samvinnu við um 600 sumarhús standa að baki 120 km lagnakerfis fyrir hitaveitu og ljósleiðara um sveitarfélagið. Sigríður Klara framkvæmdastjóri segir frá í máli og myndum aðdragandanum og hvernig hefur gengið, nú þegar verkefnið er hálfnað.

 

Vannýtt auðlind í meðalhitakerfum á Íslandi – Varmaafl og möguleg raforkuvinnsla

Björn Már Sveinbjörnsson, ÍSOR, kynnir helstu niðurstöður skýrslunnar „Medium Enthalpy Geothermal Systems in Iceland – Thermal and Electric Potential“ (http://os.is/gogn/Skyrslur/ISOR-2016/ISOR-2016-008.pdf) sem unnin var fyrir Orkustofnun. Lýst er árangri borana í meðalhitakerfi á Íslandi, fjallað um möguleika til raforkuvinnslu og tekin dæmi um nokkur meðalhitakerfi.

 

Hönnun hreinsistöðvar fyrir fráveitu Akureyrar – Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku

Farið er yfir hönnunarforsendur fráveitukerfisins sem byggt er upp samkvæmt lausn frá verkfræðistofunni Reinertsen frá 2002. Allt kerfið er nú komið í eina útrás. Farið er yfir lóðamál hreinsistöðvarinnar, deiliskipulag, vöktunaráætlun viðtakans og hvers vegna framkvæmdin þurfti í Umhverfismat. Farið er yfir hönnunarforsendur hreinsistöðvar s.s. persónueiningar, rennslismagn, hvers vegna hönnun var einfölduð, framtíðarsýn hreinsunar og sýndar teikningar af hreinsistöðinni. Þá er komið inn á að hreinsun sé skilvirkust við vegg þess sem mengar, en ekki við síðasta rör út í sjó.

 

Óhreinindi í fráveituvatni (Reykjavík, Tórshavn, Tromsö, Sisimiut) – Guðjón Atli Auðunsson, fagstjóri efnagreiningar og umhverfisrannsóknir, Nýsköpunarmiðstöð Íslands

Gerð er grein fyrir helstu niðurstöðum í verkefni styrktu af Norrænu ráðherranefndinni (Wastewater treatment in Nordic Arctic Areas- is it sufficient?) Í verkefninu voru mæld mjög mörg vistfræðilega varasöm aðskotaefni í fráveituvatni og viðtaka fjögurra bæjarfélaga á NV-Norðurlöndum (Sisimiut á Grænlandi, Þórshöfn í Færeyjum, Tromsö í N-Noregi og Reykjavík). Bæjarfélögin eru borin saman með tilliti til áhrifa ólíkra hreinsivirkja á styrk þeirra, hegðun í mjög ólíkum viðtökum fráveituvatns og losað magn á hverja persónueiningu og einstakling.

 

Forvarnir: Hvernig nálgumst við viðskiptavininn? – Sigrún Viktorsdóttir, forstöðumaður þjónustustýringar, OR

Erindið fjallar um þann vágest sem blautþurrkan er í fráveitukerfinu og hvaða leiðir Veitur ákváðu að fara til að reyna að ná eyrum viðskiptavina sinna í heimi þar sem sem upplýsingamiðlun og erfitt að ná athygli. Þá eru góð ráð dýr og grípa þarf til nýstárlegra aðferða.

 

Örplast í fráveitu: Lærdómur eftir málþing og næstu skref – Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri fráveitu, Veitum

Vatns- og fráveitufélag Íslands og Samorka stóðu fyrir málþingi um örplast í skólpi haustið 2016 þar sem sérfræðingar frá Eflu og NMÍ höfðu safnað saman upplýsingum um upptök og afdrif örplasts í skólpi og mögulegum hreinsiaðferðum á örplasti úr skólpi. Íris Þórarinsdóttir fer yfir lærdóm málþingsins og hvað Veitur hyggjast gera í framhaldinu.

 

Fráveitumál við Mývatn: Staða mála og mögulegar lausnir – Reynir Sævarsson, fagstjóri fráveitna og vatnsveitna, EFLU

Fjallað verður stuttlega um stöðu fráveitumála við Mývatn en mikil umræða hefur verið um nauðsynlegar úrbætur fráveitna á vatnsasviði Mývatns undanfarin misseri. Vegna sérstöðu Mývatns gilda sérstök lög um vatnasvið þess og þar er gerð krafa um ítarlega hreinsun fráveitu. Af ýmsum ástæðum eru aðstæður erfiðar til byggingar og rekstrar fráveitukerfa á svæðinu og kostnaður því talinn verða mikill. Óvissa um eðlilega skiptingu kostnaðar flækir einnig málin. Einnig verður gerð stutt grein fyrir niðurstöðum skýrslu sem nýlega var unnin um mögulegar tæknilegar útfærslur og kostnað við úrlausn mála á 7 stöðum á svæðinu.

Nýir möguleikar með bættri nýtingu hliðarstrauma jarðvarma – Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri EIMS

Í erindinu verður félagið EIMUR kynnt og farið yfir helstu markmið þess og verkefni. Fjallað verður um Norðurland eystra sem jarðhitasvæði og tækifæri þau sem búa í bættri nýtingu hliðarstrauma jarðvarma. Meðal þess sem fjallað verður um er hugmyndasamkeppni sem EIMUR stendur fyrir þessa dagana um nýtingu lághitavatns.

Raforkuframleiðsla með djúpborun – DEEPEGS – Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri framleiðslu og sölu, HS Orku

Í erindinu verður farið yfir verkefnið og helstu markmið þess. Stöðu verkefnisins í dag verður lýst og hvað hefur áunnist og farið yfir helstu áskoranir sem framundan eru.

Hermireikningar og hvað svo? Um notkun jarðhitans við ákvarðanatöku á Hellisheiði – Gunnar Gunnarsson, sérfræðingur í forðafræðirannsóknum, OR

Fjallað er um hermireikninga af jarðhitanum á Hellisheiði og hvernig þeir eru notaðir við ákvarðanatöku. Annars vegar er fjallað um hvernig þeir hafa komið að gagni við að gera áætlanir um viðhaldsboranir og að meta áhættu af slíku. Hins vegar er fjallað um hvernig hermireikningar koma að notum við að ákveða tilhögun niðurdælingar.

Framlag Auðlindagarðs HS Orku til samfélagsins – Albert Albertsson, hugmyndasmiður HS Orku

Greint er frá helstu áhrifum Auðlindagarðs HS Orku á samfélagið og á hvern hátt hann stuðlar að sjálfbærri þróun samfélagsins. Tilgreindir eru helstu þættir Auðlindagarðshugsunarinnar og á hvern hátt hún kallar eftir hugarfarsbreytingu. Einkunnarorð hugsunarinnar er samfélag án sóunar og endurreisn andlegs sambands manns og náttúru.

Reikningar í dreifingu mengunar í grunnvatni vegna áhættumats á vatnsverndarsvæði

Við heildarendurskoðun vatnsverndar fyrir höfuðborgarsvæðið var þróuð aðferðarfræði til afmörkunar verndarsvæða sem grundvallast á beitingu grunnvatnslíkans Vatnaskila af höfuðborgarsvæðinu. Hefur sú vinna m.a. leitt af sér bætta beitingu dreifingarreikninga til mats á grunnvatnsmengun á aðrennslissvæðum vatnsbóla. Reikningarnir nýtast til mats á flutningstíma mengunar frá upptökum sínum við grunnvatnsborð til vatnsbóla, og þar með viðbragðstíma vatnsveitna til viðeigandi ráðstafana við vatnsbólin. Jafnframt fæst mat á varanda mengunaráhrifa við vatnsból og mögulegum styrk mengunarefnis á brunnsvæði miðað við ætlað magn sem borist hefur til grunnvatns. Greiningin grundvallast á þynningargetu grunnvatnsleiðarans sem ákvarðast í reikningunum að teknu tilliti til breytilegs veðurfars og núverandi eða ætlaðrar framtíðar vatnsvinnslu vatnsbólanna. Víðtæk not eru af aðferðarfræðinni sem kynnt er fyrir vatnsból víða um land og má beita henni við áhættumat vegna samgangna, framkvæmda, landnotkunar eða hverskonar starfsemi sem hætta er á að mengun berist frá þannig að vatnsbólum eða lífríki stafi ógn af.

 

Viðbragðsáætlanir vatnsveitna – samstarf viðbragðsaðila. Gunnur Ýr Stefánsdóttir, Gæða-, umhverfis- og öryggisstjóri Norðurorku

Í erindinu kynnir Gunnur vatnsverndarsvæði Norðurorku og segir frá  samstarfsverkefni Norðurorku, Samorku og Neyðarlínunnar um viðbragðsáætlun vatnsveitunnar.  Undanfarið hefur fyrirtækið unnið að endurbótum á viðbragðsáætlun sinni þar sem áhersla er lögð á samstarf viðbragðsaðila ef til mengunaróhapps kemur.

Erindið verður flutt í tvennu lagi, þ.e. fyrir og eftir vinnustofu.

Sviðsmyndir um framtíðina

Erindið fjallar um sviðsmyndir um þróun raforkumarkaðar sem skilgreindar voru sem grunnforsenda þarfagreiningar fyrir kerfisáætlun Landsnets 2016-2025. Farið verður stuttlega yfir grunnhugmyndirnar á bakvið sviðsmyndirnar og hvernig þeim er ætlað að ná yfir möguleg mörk þess sem næsta kynslóð flutningskerfisins þarf að anna. Að lokum verður kynnt hvaða hlutverki sviðmyndirnar munu þjóna við útreikninga á gjaldskráráhrifum framkvæmda í næstu kerfisáætlun.

Þingsályktunartillaga um orkuskipti – Erla Sigríður Gestsdóttir, verkfræðingur á skrifstofu iðnaðar- og nýsköpunar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu

Kynnt verður þingsályktunartillaga um orkuskipti, sem ráðherra orkumála hefur lagt fram á yfirstandandi þingi. Tillagan felur í sér nýja stefnumótun, markmiðasetningu og aðgerðaráætlun fyrir orkuskipti. Farið verður yfir árangurinn í orkuskiptum hingað til og hvernig unnið var að markmiðasetningu fyrir árið 2030.

Orkuskipti í samgöngum: Hlöðuballið er byrjað – Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar

Orkuskipti í samgöngum eru augljósasta sóknarfæri Íslendinga í loftslagsmálum. Takist vel til getur rafvæðing bílaflotans orðið hliðstæða hitaveitubyltingarinnar. Orka náttúrunnar hefur á síðustu árum tekið forystu í að reisa hlöður þar sem sækja má umhverfisvænt rafmagn á bíla og hér er sagt frá stöðu uppbyggingar innviðanna og næstu skrefum sem ON hyggst taka.

 

Orkuskipti í samgöngum: Hlöðuballið er byrjað – Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar

Hver er uppruni drykkjarvatnsins okkar, hversu mikið erum við að nota og hvernig erum við að vernda þessa dýrmætu auðlind?

Jónas Ketilsson er yfirverkefnisstjóri Orkustofnunar og staðgengill orkumálastjóra. Hann hefur haft umsjón með kennslu í grunnvatnsfræði við Háskóla Íslands síðustu ár. Jónas er verkfræðingur að mennt og hefur starfað á Orkustofnun síðan 2007, fyrst sem forðafræðingur.

Orkuskipti í samgöngum og landsbyggðin

Í erindinu er fjallað um áhrif orkuskipta í samgöngum með sérstöku tilliti til dreifikerfis RARIK á landsbyggðinni. Hvað hefur rafbílavæðingin í för með sér, hvar erum við stödd og á hvaða leið erum við, hver er geta dreikerfisinst til að taka við nýju álagi vegna rafbíla, hvar eru helstu flöskuhálsar?

Virkjun í Vatnsendakrikum: Áskoranir við framkvæmdir á brunnsvæði – Anna Nielsen, verkefnastjóri, Veitum, og Arndís Ósk Ólafsdóttir, tæknistjóri vatnsveitu, Veitum

Ómeðhöndlað grunnvatn úr vatnstökusvæði svo nálægt höfuðborgarsvæðinu er ómetanleg auðlind og hagur allra að varðveita. Í gangi er virkjun á þremur borholum á núverandi brunnsvæði í Vatnsendakrikum í Heiðmörk. Veitur gera nú ríkari kröfur til vinnu á svo viðkvæmu svæði sem brunnsvæði er.

Líkangerð til stuðnings vatnstöku í nýjum sem eldri vatnsbólum – Sveinn Óli Pálmarsson, framkvæmdastjóri, Vatnaskilum

Til grundvallar vatnstöku þarf að liggja fyrir mat á grunnvatnsauðlindinni. Umfang slíks mats eykst jafnan eftir því sem vatnsþörfin er meiri og líkur á áhrifum vatnstökunnar á aðra notendur eða umhverfið aukast. Hvort verið sé að koma á fót nýju vatnsbóli eða auka vinnslu í eldra vatnsbóli hefur einnig mikið um það að segja. Kortlagning auðlindarinnar og afkastagreining og hönnun vinnslusvæðis fer gjarnan fram með stuðningi reiknilíkangerðar. Einnig er helst að beita líkani við mat á umhverfisáhrifum vinnslu og áhrifum hennar á aðra vatnsvinnslu, þegar vatnsþörfin er orðin það mikil að möguleiki sé á slíkum áhrifum eða kvaðir eru um slíkt mat í leyfisferli framkvæmdarinnar. Jafnframt má ákvarða vinnsluáætlun til undirbyggingar umsóknar um vinnsluleyfi eftir því sem við á og ákvarða nauðsynlega afmörkun vatnsverndarsvæða gagnvart vatnsbólinu. Dregin eru saman dæmi um framangreinda notkun líkangerðar og fjallað um hvernig hún geti nýst við margvíslegar aðstæður víða um land.

Starfsumhverfi vatnsveitna

Núgildandi reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn er innleiðing tilskipunar Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins nr. 98/83. Í kjölfar breytinga, sem gerðar voru á tilskipuninni síðla árs 2015, mun íslenska reglugerðin taka einherjum breytingum. Helstu breytingarnar, sem gerðar voru á tilskipuninni eru:
• að gerð er krafa um innleiðingu innra eftirlits vatnsveitna
• að eftirlit með neysluvatni má byggja á áhættumati
Gæði neysluvatns og stærð vatnsveitu. Hugleiðingar um vinnu starfshóps, sem á vegum Atvinnuvega -og nýsköpunarráðuneytisins fjallaði um litlar vatnsveitur.

Saga og rekstur vatnsveitu Akraness: Merkir atburðir í máli og myndum

Erindið fjallar um upphaf vatnsveitu á Akranesi og þá uppbyggingu og endurbætur sem átt hefur sér stað á veitunni fram til þessa dags. Vatnsveitan á Akranesi er ein örfárra vatnsveitna á Íslandi sem notast við yfirborðsvatn í vatnsveitunni. Rakið er í máli og myndum með hvaða hætti við meðhöndlum vatnið svo það sé neysluhæft og uppfylli gæðakröfur sem til vatnsveitu eru gerðar.

 

-Conceptual and Numerical Modelling Approach for Groundwater Issues – Vaiva Čypaitė

Erindið fjallar um upphaf vatnsveitu á Akranesi og þá uppbyggingu og endurbætur sem átt hefur sér stað á veitunni fram til þessa dags. Vatnsveitan á Akranesi er ein örfárra vatnsveitna á Íslandi sem notast við yfirborðsvatn í vatnsveitunni. Rakið er í máli og myndum með hvaða hætti við meðhöndlum vatnið svo það sé neysluhæft og uppfylli gæðakröfur sem til vatnsveitu eru gerðar.

Heitavatnsöflun Norðurorku

Erindið fjallar um framtíðarsýn Norðurorku varðandi heitavatnsöflun og þá kosti sem Norðurorka hefur til að afla aukins vatns til framtíðar.

Hitaveitur, orkuöflun og eftirspurn – Sigurður Þór Haraldsson, deildarstjóri vatns- og fráveitu, Selfossveitum

Erindið fjallar um meistaraverkefni í vélaverkfræði sem var unnið árið 2015 fyrir Selfossveitur. Verkefnið setti fram verklag fyrir hitaveitur til að fylgjast með stöðu orkuöflunar með spálíkönum og bera saman orkuöflunarkosti sem eru í boði með AHP aðferðinni.

Hver á holurnar? Ný borholuvefsjá Orkustofnunar – Sigurður Elías Hjaltason, sérfræðingur í gagnagrunnum, Orkustofnun

Rætt er stuttlega um sögu borholuskráningar hjá Orkustofnun og framsetningu þeirra gagna. Einnig er rætt um gildi þess fyrir samfélagið að hafa góðar upplýsingar um borholur og samlegðaráhrif borholugagna og annara gagna. Farið er yfir þá möguleika sem ný kortasjá Orkustofnunar býður upp á. Rætt er um mikilvægi þess að einhver taki að sér að halda utan um eigendur borhola og stöðu þess hjá Orkustofnun.

Árangursrík jarðhitaleit og borun við Langhús í Fljótum – Þórólfur H. Hafstað, jarðfræðingur og Bjarni Gautason, jarðfræðingur og deildarstjóri, ÍSOR

Sagt er stuttlega frá borunum við Dælislaug við Langhús í Fljótum. Þar fæst nú sjóðandi vatn á litlu dýpi og nægjanlegt fyrir hitaveitu um sveitina. Jarðhitaleitin var með afar einföldu sniði en tókst afburða vel. Svona skeður ekki oft en helst, þegar byggt er á eldri yfirborðsrannsóknum. Það tókst að gera en þó ekki alveg þrautalaust. Skagafjarðarveitur eiga þökk skilda fyrir traustið.

Varmanotkun á Íslandi – Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson, sérfræðingur, gagnagreining jarðhitanýtingar, Orkustofnun

Orkustofnun safnar á hverju ári töluvert af upplýsingum sem varðar jarðhitanotkun á Íslandi. Í erindinu verður einblínt á varmanotkun á Íslandi og gögnin sem liggja þar að baki. Þá verður farið í gegnum feril gagnasöfnunar almennt ásamt kynningu á talnaefnisvef Orkustofnunar.

Hvar eiga lagnirnar að vera? Áskoranir Veitna við þéttingu byggðar – Ásdís Kristinsdóttir, forstöðumaður Tækniþróunar og Hildur Ingvarsdóttir, forstöðumaður Viðhaldsþjónustu, Veitum

Með þéttingu byggðar og öldrun kerfa í miðborginni fjölgar verkefnum Veitna á svæðum þar sem saman fer byggð með verslunum og þjónustu og mikil umferð gangandi og akandi. Athafnasvæði veitna í verkefnum tengdum þéttingu byggða verður sífellt minna og áskoranir að finna veitukerfum pláss og tryggja öruggt vinnuumhverfi fyrir þá sem að verkefnum koma.

Staða fráveitumála á Íslandi – Tryggvi Þórðarson, sérfræðingur, Umhverfisstofnun

Fjallað er lauslega um uppbyggingu og rekstur fráveitna og gerð grein fyrir stöðu mála miðað við árið 2014. Farið verður yfir nokkur atriði sem gerðar eru kröfur um. Byggt er að mestu á upplýsingum frá heilbrigðisnefndum sem safnað var vegna gerðar skýrslu um stöðu fráveitumála

 

Environmental modelling, a powerful tool to preserve pristine freshwaters – David Christian Finger, lektor, Háskólanum í Reykjavík

Environmental models can help identify key processes degrading water quality of freshwater systems. By simulating different scenarios water protection measures can be tested and water protections policies optimized. The presentation will summarize lessons learned from Swiss and US case studies.

Veröld fláa; Skurðir, öryggi og lausnir

Skurðarsnið Veitna eru byggð á kröfum sem gefnar hafa verið út af Vinnueftirlitinu. Í kjölfar alvarlegs „næstum því“ slys hófst vinna við að endurskoða fláa og vinnupláss í skurðum og aðrar öryggisráðstafanir.

Er þetta ekki bara fínt svona?

Á síðasta ári tók Landsnet þátt í samstarfsverkefni um að meta raforkuöryggi á Íslandi og lausnir tengdar því. Verkefnið spannar mikið svið en hér verða nokkrir þættir úr verkefninu dregnir út til umfjöllunar og settir í samhengi við annað sem er í umræðunni.

Áhrif strengvæðingar á afhendingaröryggi í dreifbýli – Pétur E. Þórðarson, framkvæmdastjóri tæknisviðs, RARIK

Frá árinu 1990 hefur RARIK lagt um 4600 km af 11 og 19 kV jarðstrengjum til endurnýjunar og aukningar á dreifikerfinu og eru þeir nú um 57% af lengd dreifikerfisins. Með þessari strengvæðingu hefur dregið verulega úr truflunum og eðli þeirra breyst. Farið verður yfir þessa þróun.

Vandi er um slíkt að spá – Þrándur Ólafsson, verkefnastjóri í orkumiðlun, Orku náttúrunnar

Erindið fjallar um þann orkusparnað sem sést hefur í gögnum um raforkunotkun á undanförnum árum. Settar eru fram tilgátur um ástæður og út frá þeim velt upp mögulegu framtíðarálagi. Rafbíllinn er eina heimilistækið sem fyrirséð er að muni kalla á álagsaukningu og samspil þess framtíðarálags við almennan orkusparnað mun skipta máli í raforkukerfum hérlendis næsta áratuginn.

Útfellingar og umhverfi – Marín Ósk Hafnadóttir, öryggis- og umhverfisstjóri, HS Orku

Farið verður yfir tímalínuna frá því að aukin náttúruleg geislun mældist í útfellingum á holutoppum í Reykjanesvirkjun, myndun útfellinganna útskýrð og áhrif þeirra á umhverfið.

Efnavöktun fráveitu – Sverrir Óskar Elefsen, efnatæknifræðingur, Mannvit

Í erindinu er fjallað um aðferðir við efnavöktun fráveituvatns og mat á áhrifum þess á viðtaka.Sem dæmi eru teknar niðurstöður úr yfirstandandi vöktun í fráveitu á Selfossi og viðtaka hennar, Ölfusá. Auk mælinga á efnainnihaldi eru rennslismælingar nauðsynlegur hluti efnavöktunar enda forsenda framburðarreikninga og eins mikilvæg forsenda við hönnun hreinsistöðva. Aðstæður til rennslismælinga og sýnatöku í fráveitukerfum eru oft takmörkum háðar, sem mikilvægt er að skilja við framkvæmd vöktunar og túlkun á niðurstöðum. Fjallað er um mat á fjölda persónueininga, mögulegar ástæður fyrir miklum breytileika í niðurstöðum og hugmyndir að nýrri nálgun við matið.

Mosi og gróður á lager; yfirborðsfrágangur og landgræðsla á Hellisheiði

Við frágang eftir framkvæmdir hjá Orku náttúrunnar hefur gróðri verið haldið til haga og hann nýttur til að ganga frá og endurheimta náttúruleg gróðurlendi. Erindið fjallar um aðferðir og árangur af landgræðslu og frágangi þar sem m.a. fremur nýstárlegar aðferðir eru notaðar eins og að geyma mosa á lager í frystigámi og blanda hann með súrmjólk til að endurheimta mosaþembu. Ávinningurinn er sá að gróðursamsetning og ásýnd svæðanna verður svipuð því og áður en raskið varð. Landgræðslu og umhverfisstjóri ON fékk umhverfisverðlaun Ölfus fyrir brautryðjendastarf landgræðsluverkefnanna á Hellisheiði.

Sjálfbært samfélag: Ferðalag en ekki áfangastaður – Sandra Rán Ásgrímsdóttir, sjálfbærniverkfræðingur, Mannvit

Framtíðin er óljós, við vitum þó að við getum ekki haldið áfram að lifa og þróast á sama hátt og við höfum gerst síðustu áratugi. Í þessum fyrirlestri verður horft frá víðu sjónarhorni á þær breytingar sem við þurfum að ganga í gegnum til þess að tryggja að við getum haldið áfram að lifa við þau nútímaþægindi sem við flest á Vesturlöndum búum við í dag til framtíðar.

Vindmyllur og fuglar: Rannsóknir í Búrfellslundi – Þorkell Lindberg Þórarinsson, forstöðumaður Náttúrustofu Austurlands

Uppbygging vindlunda (e. wind farm / wind park) hér á landi kallar á ýmiskonar rannsóknir í tengslum við mat á umhverfisáhrifum. Fuglar geta orðið fyrir margvíslegum áhrifum af vindmyllum og því er mikilvægt að huga sérstaklega að þeim við undirbúning vindlunda. Náttúrustofa Norðausturlands, í samstarfi við Árósaháskóla í Danmörku, rannsakaði möguleg áhrif Búrfellslundar á fugla fyrir Landsvirkjun árið 2014. Við rannsóknina var beitt nýstárlegum aðferðum sem ekki hafði verið beitt hér á landi áður við mat á umhverfisáhrifum. Helstu niðurstöður voru þær að varpþéttleiki fugla í Búrfellslundi væri lágur, helstu farleiðir fugla lægju utan hans og gera mætti ráð fyrir litlum afföllum fugla.

Brúum launabilið

Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélögin hafa einsett sér að útrýma launabili á grunni kynferðis og hafa náð eftirtektarverðum árangri. Þær greiningar sem stuðst hefur verið við eru því marki brenndar að niðurstaða þeirra liggur fyrir of löngu eftir að gagnanna er aflað. OR hefur þróað nýtt tól í samstarfi við vísindafólk sem gefur kost á að sjá í sviphendingu hvaða áhrif hver launaákvörðun hefur á kynbundinn launamun hjá fyrirtækjunum.

Heimsmarkmið 5 „tékk“ – nú er tími tækifæranna – Selma Svavarsdóttir, forstöðumaður innri samskipta, Landsvirkjun

Þróun jafnréttismála hjá Landsvirkjun og tengsl þeirra við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Hver eru raunveruleg markmið okkar í jafnréttismálum og hvaða jafnréttistækifærum stöndum við frammi fyrir?

Innleiðing læsa merkja prófa hjá Veitum

Innleiðing á LMP í rafmagni hjá Veitum hófst haustið 2016.Í erindinu verður fjallað um ástæðu innleiðingar, útá hvað þetta gengur og innleiðinguna sjálfa. Rætt verður um hvað gekk vel og hver vandamálin eru. Hver er staðan í dag?

 

Nýir tímar í götulýsingu

Hröð þróun hefur verið undanfarin ár á tækni sem tengist götulýsingu,  þá sérstaklega vegna tilskipana ESB og tilkomu nýs ljósgjafa.  Fjallað verður um þær áskoranir sem hönnuðir götuljósa eru að takast á við þessa stundina.

Skilvirkt ferli framkvæmda – Unnur H. Kristjánsdóttir, yfirmaður verkefnastjórnunar framkvæmda, Landsneti

Í kjölfar stefnumótunar Landsnets var hleypt af stokkunum umbótaverkefni þar sem farið var ofan í kjölinn á ferli framkvæmda hjá fyrirtækinu með það að markmiði bæta nýtingu fjármuna, tíma og auka gæði í framkvæmdaverkum. Verkefnið var unnið þvert á fyrirtækið og skilaði bættu verklagi fyrir framkvæmdaverk.

 

Jarðskaut í dreifiveitum – Jón Már Halldórsson, sviðsstjóri verkefnastjórnunarsviðs, Mannvit

Farið í gegn um helstu niðurstöður vinnuhóps veitnanna sem komið var á fót 2015, um jarðskaut almennt – mælingar jarðskauta, útreikninga og leiðbeiningar sem Mannvirkjastofnun gaf út í kjölfarið á þessari vinnu, VL 3.030. Einnig er fjallað sérstaklega um mælingar víðáttumikilla jarðskauta, kröfur staðalsins ÍST EN 50522:2010 til snertispennu og hönnunarstrauma og spennujöfnun innan virkja.

Álagsstýring Norðuráls

Kynning á snjallnetsverkefni þar sem álagi á kerlínu 2 hjá Norðuráli er stýrt í truflanatilvikum, með það að markmiði að auka rekstraröryggi í raforkukerfinu. Farið verður yfir virkni og rekstrarreynslu af þessu nýstárlega álagsstýringar verkefni. Að lokum verður farið yfir önnur sambærileg verkefni sem eru í þróun.

Frumhönnun veitna á deiliskipulagsstigi – Anna Heiður Eydísardóttir, umhverfisverkfræðingur, EFLU 

Fjallað er um frumhönnun veitukerfa og ofanvatnslausna ásamt athugun á flóðamálum á deiliskipulagsstigi. Farið verður yfir hvernig skipulagið er í Noregi varðandi frumhönnun veitna, hvernig við gætum útfært frumhönnun veitna á Íslandi og hvaða ávinningar eru af því að taka þessi mál fyrir snemma í skipulags-og hönnunarferlinu.

Hækkuð sjávarstaða á höfuðborgarsvæðinu: Áhrif og aðgerðir – Auður Magnúsdóttir, sérfræðingur á umhverfis- og skipulagssviði, VSÓ Ráðgjöf

Aðlögun að hækkun sjávarborðs af völdum loftslagsbreytinga er verkefni sem samfélagið stendur frammi fyrir. Þekking á þessum breytingum á umhverfinu hefur legið nokkuð lengi fyrir en misjafnt er hvernig stjórnvöld hafa brugðist við. Í erindinu er fjallað um niðurstöður rannsóknarverkefnis sem VSÓ Ráðgjöf vann með styrk úr rannsóknar og þróunarsjóði Skipulagsstofnunar þar sem kortlagt var 4 m sjávarflóð á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt sviðsmynd til ársins 2100. Skoðað var hvernig ábyrgð stjórnvalda gagnvart aðlögun sjávarhækkunar er háttað og skipulagsáætlanir sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu rýndar m.t.t. aðgerða til að mæta þeim vanda sem hækkun sjávarborðs getur skapað.

Leiðbeiningar Alta, Samorku og Skipulagsstofnunar við innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna – Halldóra Hreggviðsdóttir, framkvæmdastjóri, Alta

Kynning á því hvað blágrænar regnvatnslausnir eru, helstu skrefin við innleiðingu, nauðsynlega fræðslu og notkun á leiðbeiningunum.

Blágrænar ofanvatnslausnir: Frá hugmynd að veruleika – leiðbeiningar Alta, Samorku, studdar af Skipulagsstofnun – Brynjólfur Björnsson, fagstjóri veitna, Mannvit

Mannvit er að forhanna götur og fráveitu fyrir nýtt athafnasvæði á Esjumelum. Í samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið er kveðið á um að leitast verði við að nota vistvænar ofanvatnslausnir þar sem því verður við komið. Í fyrirlestrinum verður farið yfir helstu áskoranir sem upp hafa komið við tæknilegar útfærslur blágrænna ofanvatnslausna á svæðinu, en annars konar áskoranir fylgja innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna á athafnasvæðum samanborið við íbúðabyggð.

Á ég að gera það? Lærdómsferlið við innleiðingu á blágrænum ofanvatnslausnum – Fjóla Jóhannesdóttir, fagstjóri fráveitu, Veitum

Að innleiða blágrænar ofanvatnslausnir í borgarumhverfi er samvinna margra fagaðila. Þessi þverfagleg samvinna kallar á nýjar skilgreiningar á verkferlum, ábyrgð og kostnaðarskiptingu milli Veitna og sveitarfélaga.

Varmadæla HS Veitna í Vestmannaeyjum – Oddur B. Björnsson, vélaverkfræðingur, Verkís

Fjallað er um varmadælu í Vestmannaeyjum sem nýtir varma úr sjó og getur skilað varmaorku til hitaveitunnar sem nemur um 93% af árlegri varmaþörf, en notar aðeins um 26% af þeirri raforku sem nú fer til rafskautakatla. Farið er lauslega yfir helstu einkenni varmadælna, tækifæri og takmarkanir. Uppbyggingu varmadælunnar í Vestmannaeyjum er lýst og hvernig hún nýtir 6 – 12°C heitan sjó til að hita 34°C bakvatn frá hitaveitunni upp í 77°C. Farið er stuttlega yfir afkastastýringu og samspil varmadælunnar við kyndistöð og notendur, og almennt hvernig samþætta má varmadælur við hitaveitukerfi sem fyrir er.

Holutopploki á fullum þrýstingi – Gunnar Björn Rögnvaldsson, verkefnastjóri hjá Skagafjarðarveitum

Síðastliðið sumar stóðu Skagafjarðarveitur fyrir borun á nýrri heitavatnsholu við Langhús í Fljótum samhliða lagningu hitaveitu um sveitina.
Vonast var eftir um 4l/s af 100°C heitu vatni en þegar upp var staðið gaf holan meira en 30l/s af 110°C heitu vatni í sjálfrennsli. Það reyndist því þrautin þyngri að koma fyrir holuloka á holutoppnum að borun lokinni.

Áhrif jarðganga á grunnvatnsstöðu og vatnsbúskap jarðhitakerfa – Magnús Ólafsson, jarðefnafræðingur, ÍSOR

Jarðgöng opna leiðir milli dala, fjarða, bæjarfélaga og landshluta og létta landsmönnum lífið. Þrátt fyrir að vera tiltölulega dýrar framkvæmdir hefur jarðgangagerð talist hagkvæm ekki síst í ljósi þess að þau bæta samfélög og auka lífsgæði. Jarðgöng hins vegar opna gat í gegnum jarðlög og geta haft áhrif á vatnsþrýsting í nærliggjandi grunnvatns- og jarðhitakerfum. Fjallað verður um nokkur dæmi þar sem sjónum er beint að þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið til að kanna grunnvatnsstöðu við undirbúning jarðgangagerðar og til að meta áhrif til lengri tíma á jarðhitasvæði.

Ný sýn á skoðun og eftirlit með veitukerfum: Notkun á flugdrónum – Páll Bjarnason, svæðisstjóri á Suðurlandi og fagstjóri landupplýsinga og landmælinga, EFLU og Cathy Legrand, byggingarverkfræðingur, EFLU

Álit almennings á drónum er mjög litað af því að þeir séu leiktæki sem eru notuð af einstaklingum sem virða ekki einkalíf og reglur en taka flottar myndir. EFLA er að nota dróna til þess að safna gögnum á fljótlegan og öruggan hátt t.d. eftirlit með hitamyndavél eða loftmyndatöku fyrir landmódel.

/* Omit closing PHP tag to avoid "Headers already sent" issues. */